30.5.06

Pabbastelpa

Núna er sú stutta orðin 10 daga gömul og dafnar vel. Hjúkkan úr ungbarnaeftirlitinu kom í dag og gaf henni toppeinkunn á alla kanta, "stinn og sterkleg, dugleg að halda höfði og horfa í kring um sig og þyngist vel". Hún er búin að þyngjast um 250 grömm sem þykir harla gott, enda er hefð fyrir því að ég mjólki feitu rjómablandi handa börnunum mínum. Tröllamjólk vilja sumir kalla það.
Snæfríði og Sindra finnst ungbarnalífið ekki mjög spennandi, ef litla systir er ekki sofandi, þá er hún að fá sér að drekka, eða verið að skipta um bleiju. Meiri ósköpin hvað þessi litla stelpa getur sofið mikið. Og þau eru hálfhissa á því að hún skuli ekki gráta meira. Hún er þó alltaf meira og meira vakandi með hverjum deginum og er farin að horfa mjög gáfulega á foreldra sína. En svo verður hún óskaplega sybbin, eða óskaplega svöng og þá þarf að bregðast rösklega við, því sú stutta er nú ekki alveg skaplaus.

No comments: