25.1.07

7 mánaða og einnar viku gömul - fyrsta orðið


Já, ég veit, mánaðargömul frétt. Don't shoot. En jæja,

Rétt fyrir áramótin sat Sólveig við matarborðið hjá afa og ömmu í Mánahlíð og sagði hátt og ákveðið: "mamm-mamm", sem þýðir augljóslega namm-namm. Þetta var frekar viðeigandi fyrir stað og stund, og er hún ekki sú eina sem hefur fyllst matarást við borðið í Mánahlíð.

Síðan þá hefur Sólveig ekki séð ástæðu til að bæta við orðaforðann sinn, en talar mikið um "mamm-mamm". Fljótlega eftir að hún vaknar á morgnana byrjar hún að tala um "mamm-mamm" og segir þessi orð með miklum tilþrifum og innlifun þegar hún sér grautardiskinn sinn við matarborðið. Og í hvert sinn sem einhver á heimilinu sést hafa eitthvað matarkyns um hönd, kemur Sólveig litla skríðandi, horfir á mann löngunaraugum... mamm-mamm?.

Uppáhalds "mamm-mamm" eru maukaðar kartöflur með gulrótum og brokkolí og lambakjöti. Svo eru bananabitar, brauð og hafragrautur með eplum líka mjög mikið "mamm-mamm". Og matarkex, vúhú, algjört "mamm-mamm".

23.1.07

Meiri flensa....

Sindri vaknaði í morgun með 41 stiga hita, beinverki, hálsbólgu og hósta.
Sólveig náði 40 stiga hita í dag og er með nefrennsli og hósta.

Ég er að hressast, er enn með hitavellu og hósta en alveg fótafær.

Hér er panodil á matseðlinum í morgunmat, hádegismat, kaffitíma og kvöldmat - og jafnvel oftar ef þörf er á. Með hverri töflu sem við sporðrennum aukast líkurnar verulega á að við fáum okkur öll flensusprautuna á næsta ári.

Annars er bara allt gott að frétta.

22.1.07

Flensan er komin - ójá

Við Sólveig vöknuðum fyrir norðan á sunnudagsmorguninn alveg eldhressar og sprækar. Eftir því sem leið á morguninn fór ég að finna fyrir smá hálsbólgu, en þar sem ég var ekki neitt kvefuð og ekkert slöpp drifum við okkur í að hitta Glerárskólapæjurnar Línu og Elvu og litlu stelpurnar þeirra, Ulomu, Chisome og Sigrúnu. Það var auðvitað rosalega gaman hjá okkur, en um hádegið þurfti ég að drífa mig af stað og sækja Sindra og Snæfríði til afa og ömmu í Mánahlíð svo við myndum ná fluginu okkar klukkan eitt. Einar ætlaði að keyra suður einum degi síðar svo hann myndi ná að vinna meira í Furulundinum. Á leiðinni út á flugvöll byrjaði ég að finna fyrir slappleika og beinverkjum.

Þegar við lentum í Reykjavík var ég orðin fárveik, og drulluslöpp. Ég ræsti út Lilju barnapíu til að taka á móti krökkunum svo ég gæti lagt mig heima í 2 tíma og látið mér batna. Ég varð hins vegar bara veikari og veikari, með háan hita og beinverki dauðans og komst varla framúr rúminu. Einar kom svo með flugi um klukkan sex til að bjarga börnunum frá vanrækslu móður sinnar. Núna, um sólarhring síðar er ég komin yfir það versta og er ekki lengur alveg rúmliggjandi. Hrikalegt mál og hundleiðinlegt.

Norðurferð

Við vorum fyrir norðan um helgina í góðu yfirlæti, ótrúlega gott skíðafæri í Hlíðarfjalli. Snæfríður er orðin mjög góð á skíðum, hún fór með Ara Páli og Kalla á föstudaginn í fjarkann og skemmti sér mjög vel. Svo fóru Snæfríður, Ari og Sindri í skíðaskólann á laugardagsmorgun, en henni fannst hann alltof léttur og algjörlega fyrir neðan sína virðingu ;-) Sindri skemmti sér hins vegar konunglega í skíðaskólanum, og var alveg fullur sjálfstrausts þegar ég fór með hann í fjarkann eftir hádegið. Hann lét sig bara gossa niður brekkuna á fullri ferð - tómt vesen að standa í þessu leiðinda svigi, og endaði auðvitað með því að að kútveltast um í mjúkum púðursnjónum. Eftir það svigaði hann mjög samviskusamlega niður allar brekkur.

Einar, Aggi og Travis fóru á kostum í niðurrifsstarfsemi í íbúðinni í Furulundi alla helgina. Mér skilst að nær ekkert standi eftir, jú reyndar útveggirnir. Kalli lagði þeim lið eitt kvöldið - enda vanur maður. Svo er bara að sjá hvernig gengur að byggja upp aftur.

Einar hefur núna lokið 16 ára starfsferli sínum hjá Íslandsbanka - Glitni og tekur við nýju starfi hjá Kaupþingi eftir 2 mánuði. Þangað til fáum við Sólveig að hafa hann svolítið heima hjá okkur á daginn, og svo mun hann sýna einhverja iðnaðarmannatakta fyrir norðan.

19.1.07

Farmkvæmdir og breytingar...



... er þema ársins 2007.

Gæti verið verra. Iðjuleysi og stöðnun er til dæmis mjög óspennandi þema.

14.1.07

Í vikulokin

Sælt veri fólkið

Nú hef ég verið heima undanfarið og fengið tækifæri til að kynnast liðinu nánar. Ég hef verið í fjórða sæti hjá Sólveigu af fjölskyldumeðlimunum en vonandi stendur það til bóta á næstunni. Ég hef einnig haft meiri tíma en venjulega til að lesa og grúska og mæli með eftirtöldu í vikulokin:

Ljóðabók sem ég gaf Lólu í afmælisgjöf eftir Ingunni Snæland sem heitir Guðlausir menn - Hugleiðingar um jökulvatn og ást. Ég les yfirleitt ekki ljóð, nema þá ljóð Jóa frænda! en þetta er eðal bók. Lóla var mjög ánægð :-)

Viltu vinna milljarð eftir Vikas Swarup. Sá sem skrifar bókina er Indverskur diplómat og er þetta fyrsta bók hans. Þegar ég byrjaði að leita að bókum til að gefa Lólu í jóla- og afmælisgjöf hvarflaði ekki að mér að líta á þessa bók. Titillinn er frekar fráhrindandi og hélt ég að um væri að ræða eitthvað ómerkilegt efni tengt viltu vinna milljón á stöð tvö. Ég kveikti svo á perunni eftir að hún fékk einhver verðlaun rétt fyrir jól og keypti hana. Bókin er skemmtileg, fróðleg, fyndin, svona eitt allsherjar ævintýri. Nú svo var Lóla aftur voða ánægð :-)

Stuttur en skemmtilegur pistill Eiríks Guðmundssonar í tilefni af afmæli David Bowie´s í byrjun vikunnar. http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4314850

góðar stundir

Í vikulokin

13.1.07

Það mannvirki sem sést best utan úr geimnum...



.... eru sorphaugar New York borgar.

A hverjum 100 fullum innkaupapokum sem þið berið inn á heimili ykkar, þá haldið þið á 80 fullum innkaupapokum út í tunnu.

Boðorðin 3 eru:
1. Minnkum sóun
2. Endurnýtum
3. Endurvinnum

12.1.07

Úlfur Anthony Heafield 2ja ara!

Úlfur Anthony Heafield 2ja ara!

Ég kynntist Úlfi fyrir sléttum tveimur árum, klukkutíma eftir fæðingu hans. Hann er auðvitað snillingur eins og öll önnur afmælisbörn sem ná að komast á þessa síðu. Úlfur er duglegur strákur og gefur eldri krökkum ekkert eftir. Hann er áhugasamur að tala við frændfólk sitt í síma en vill helst tala við Snasussuss og Sinda (Snæfríði og Sindra) á þessu heimili. Allir snillingar hafa veikleika og hans er að telja að Einar frændi sé amma Íja þegar hann talar við hann í síma, iðulega! úlfur er sagður feiminn á leikskólanum en með sínu fólki vill hann vera í sviðsljósinu og lætur í sér heyra. Úlfur er flínkur með bolta og mikill áhugamaður um dans, byrjaði snemma að dilla sér er hann heyrði tónlist og á sennilega eftir að láta að sér kveða á þessum vettvangi. Við komumst ekki norður í afmælið hans en sendum okkur bestu kveðjur úr Hrísrimanum.

10.1.07

Scott Walker er sextíu og fjögra í dag!

Scott er snillingur sem á sér engan líka. Röddin einstök, maðurinn algjör drama queen eins og Lóla segir, óhefðbundnir textar, lögin áhrifarík og sjaldan í poppútsetningum. Maðurinn heitir Noel Scott Engel og fæddist 1943 í Ohio í Bandaríkjunum en flutti snemma til Bretlands og sló í gegn með tveimur öðrum félögum sínum sem The Walker Brothers upp úr miðjum sjöunda áratugnum. Þið munið kannski ekki eftir þeim en það liggja mörg klassísk verk eftir þá eins og The sun ain’t gonna shine Anymore og Make it easy on yourself. Sólóferill hans hófst um 1967 og var hann mjög vinsæll fram til 1970 en eftir frekar slæma dóma fyrir Scott 4 (ekki mjög frumleg nöfn á fyrstu fjórum sólóplötunum!) sem þótti of þung dró hann sig í hlé og hefur hann ekki notið almannahylli síðan. Scott er einrænn og gefur yfirleitt ekki kost á viðtölum. Hann hefur ekki verið afkastamikill og hafa einungis komið út 3 plötur frá honum síðustu 10 árin. Það breytir því þó ekki að eftir hann liggur töluvert af mjög sérstöku og skemmtilegu efni og hann hefur haft mikil áhrif á t.d. David Bowie, Nick Cave, Radiohead, Marc Almond, Jarvis Cocker, Anthony and the Johnssons og Bono. Hann getur verið tormeltur í byrjun en hann launar þeim ríkulega sem nenna að hlusta á hann í gegn. Hann fer oft á ystu brún og hallar ískyggilega nálægt því að vera hallærislegur eða hlægilegur en snilldin er einungis svona mikil að hann getur leyft sér það! Eða er hann bara gaga?

8.1.07

David Robert Jones sextugur

Ég man fyrst eftir að hafa heyrt í DB þegar ég er 5-6 ára og heyrði “Life on Mars” og “Starman” í útvarpinu. Það var eitthvað heillandi við þessa tónlist en ég átti nú einungis eina plötu á þessum árum (’74) og það var smáskífan “Seasons in the Sun” með Terry Jacks:

“Goodbye to you my trusted friend
We've known each other since we were nine or ten
Together we climbed hills and trees
Learned of love and A B C's
Skinned our hearts and skinned our knees” …

(http://www.geocities.com/bjaes.geo/lyrics/seasons.htm) – endilega hlustið á þessa útgáfu.

Á þessum tíma var sennilega Einar Logi (5 ára) að raula Bob Dylan þannig að þið sjáið að ég var ekki mjög þroskaður tónlistarlega! Ég man ekki hvernig mér áskotnaðist þessi smáskífa en sennilega voru það mútur til að ég umbæri nýju systkinin mín Agga og Maju. Ég var hálfgildings einbirni fram að komu þeirra ’72-’73 og þetta hefur áreiðanlega reynt töluvert á mig.

Segir nú ekki af kynnum mínum af DB fyrr en um jólin 1977 er Ingvar bróðir fékk “Heroes” í jólagjöf frá systrum sínum í Reykjavík. Ingvar og hans vinir hlustuðu mikið á tónlist og ég hékk oft yfir þeim og drakk í mig þá tónlist sem þeir hlustuðu á, á meðan þeir drukku eitthvað annað!
Ingvar hlustaði svolítið á DB og var reyndar stundum líkt við hann, báðir mjög grannir, með há kinnbein og Ingvar klippti sig a la Ziggy Stardust án þess þó að lita hárið appelsínugult. Ingvari líkaði þó “Heroes” platan ekki allskostar og fannst hún furðuleg og þung, B-hliðin er m.a. “instrumental”. Bowie hafði þarna sagt skilið við glysrokkið og var að prófa sig áfram í raftónlist með Brian Eno. Ég reyndi að hlusta á plötuna og fannst A-hliðin góð og hreifst mjög af titillaginu – auðvitað :-)

Nú líða nokkur ár og það er ekki fyrr en eftir útgáfu “Scary Monsters” ’80 sem ég fer að bera mig frekar eftir DB. Steini vinur minn sem var að umbreytast í pönkara var farinn að pæla mikið í tónlist og við hinir drógumst að þessari bylgju og fórum að leggja við hlustir. Bowie var einskonar guðfaðir margra pönkara og nýbylgjunar sem fylgdi í kjölfarið og því var mjög eðlilegt að grúska í hans tónlist á þessum tíma.

Fram að þessu skiptust flestir krakkar í kringum mig í tvo hópa; Kiss eða Queen. Ég hafði takmarkaðan áhuga á Kiss en Drottningin var í lagi. Erfitt var að komast yfir tónlist og það er ekki fyrr en ég fór að þéna sæmilega í sumarvinnunni á sambands-verksmiðjunum að ég fór að kaupa Bowie í stórum stíl, ’82-’83. Ég trúði hreinlega ekki hvernig maðurinn gat gert allar þessar frábæru plötur sem eru um margt ólíkar. Þetta er eins og með Laxnes þar sem sumir hafa haldið því fram að hann hafi ekki skrifað allar bækurnar þar sem efnistökin eru svo ólík.
Áttundi áratugurinn var eign DB en þá komu flestar af hans bestu plötum út: The man who sold the world, Hunky Dory, Ziggy Stardust, Aladdin Sane, Diamond Dogs, Young Americans, Station to Station, Low, Heroes, Lodger og að lokum Scary Monsters. Annað eins verður ekki eftir leikið og er þá mælistikan ekki fjöldi topplaga, sala platna eða fjöldi tónleikagesta. Hér er um að ræða frumlegustu, djörfustu, dularfyllstu, áhrifamestu og umfram allt skemmtilegustu plötur sem nokkur tónlistarmaður hefur gefið út.

Árin ’85-’95 voru vægast sagt erfið fyrir DB og var eins og snilligáfan hefði yfirgefið hann og er þetta tímabil sem flestir safnaðarmeðlimir vilja gleyma. Síðustu 10 ár hafa verið góð og hann hefur gefið út margar góðar skífur og fylgt þeim eftir með mjög vel heppnuðum tónleikum og hef ég náð að komast á Reykjavík ’96, Pistoia á Ítalíu ’97 og Antwerpen 03´.

I never done good things
I never done bad things
I never did anything out of the blue, woh-o-oh
Want an axe to break the ice
Wanna come down right now

5.1.07

Jæja, Guðrún mín...

...þú baðst um myndir - og hérna koma þær. Jól og áramót.

Dyggir lesendur Hrísrimabloggsins fá áramótakveðjur.

Það er komið nýtt ár




Gamla árið kvatt



Sólveig og afi Gunnar


Kátir kokkar


Signý í snjóhúsi





Einsi kaldi


Bregðum blysum á loft

Sætar systur



Það var gaman að fá Ulomu og Chisome í heimsókn - já og auðvitað líka foreldrana Línu og Jimanze. Það gleymdist bara að taka mynd af þeim. Svona er lífið þegar fólk á börn;-)

Í Fálkafelli




Fjallgöngubörnin voru auðvitað drifin í stutta jólafjallgöngu. Gengið upp í Fálkafell og nestið borðað. Mun fljótlegra að fara niður heldur en upp.

Kaffiboð hjá Maju og Travis


Íja og Maja




Travis með jólaglaðning frá Ástralíu



Kisi í fyrirsætustellingum

Flóð



Ummerki skoðuð um flóðið sem varð þegar stíflan brast og vegurinn fór í sundur.

Lopapeysan góða frá ömmu Íju

4.1.07

Jóladagur


Á jóladag komu Guðrún og Nonni og Þórdís Signý og Óli og svo langamma Guðrún til okkar í smá jólaboð. Við fórum öll á kostum í SingStar og höfðum það gott. Langamma gaf Sólveigu þennan kjól í jólagjöf, en sagan sem fylgir kjólnum er sú að langamma prjónaði hann á dóttur sína, hana ömmu Þóru fyrir jah - allavega hálfri öld. Sólveig tók sig vel út í kjólnum góða.

Aðfangadagskvöld

Sólveig og jólagjöfin



Sólveig byrjaði að ganga nokkur skref um miðjan mánuðinn með því að ýta dótakassanum sínum á undan sér. Hún varð því ægilega ánægð með jólagjöfina sína sem er mátulega há og mátulega stöðug til þess að hún geti ýtt henni á undan sér.

Jobbi, Ásdís og Birkir komu í heimsókn á aðfangadag

Sólveig að "lána" Birki dótið sitt.

Sindri og Ronja

Piparkökumálun á Grandaveginum