Ingvar hlustaði svolítið á DB og var reyndar stundum líkt við hann, báðir mjög grannir, með há kinnbein og Ingvar klippti sig a la Ziggy Stardust án þess þó að lita hárið appelsínugult. Ingvari líkaði þó “Heroes” platan ekki allskostar og fannst hún furðuleg og þung, B-hliðin er m.a. “instrumental”. Bowie hafði þarna sagt skilið við glysrokkið og var að prófa sig áfram í raftónlist með Brian Eno. Ég reyndi að hlusta á plötuna og fannst A-hliðin góð og hreifst mjög af titillaginu – auðvitað :-)
Nú líða nokkur ár og það er ekki fyrr en eftir útgáfu “Scary Monsters” ’80 sem ég fer að bera mig frekar eftir DB. Steini vinur minn sem var að umbreytast í pönkara var farinn að pæla mikið í tónlist og við hinir drógumst að þessari bylgju og fórum að leggja við hlustir. Bowie var einskonar guðfaðir margra pönkara og nýbylgjunar sem fylgdi í kjölfarið og því var mjög eðlilegt að grúska í hans tónlist á þessum tíma.
Fram að þessu skiptust flestir krakkar í kringum mig í tvo hópa; Kiss eða Queen. Ég hafði takmarkaðan áhuga á Kiss en Drottningin var í lagi. Erfitt var að komast yfir tónlist og það er ekki fyrr en ég fór að þéna sæmilega í sumarvinnunni á sambands-verksmiðjunum að ég fór að kaupa Bowie í stórum stíl, ’82-’83. Ég trúði hreinlega ekki hvernig maðurinn gat gert allar þessar frábæru plötur sem eru um margt ólíkar. Þetta er eins og með Laxnes þar sem sumir hafa haldið því fram að hann hafi ekki skrifað allar bækurnar þar sem efnistökin eru svo ólík.
No comments:
Post a Comment