19.2.07

Nýgift!



Í dag fórum við til sýslumanns, settum upp hringa og sögðum já.
Athöfnin var hátíðleg og látlaus og Snæfríður, Sindri og Sólveig voru viðstödd.

Eftir borgaralegan brúðkaupsdag, tökum við stefnuna á konunglega hveitibrauðsdaga.

Skákfréttir



Snæfríður er komin í B-sveit Rimaskóla í skák. Skáksveit þessi státar af gríðarlega öflugum skákmönnum sem flestir eru bekkjarbræður Snæfríðar og teljast bestu skákmenn landsins í sínum aldursflokki. Það er því vel af sér vikið hjá henni að komast í þessa sveit. Á síðasta föstudag unnu þau til silfurverðlauna á grunnskólamóti í skák. Gullverðlaunin fékk A-sveit Rimaskóla og munaði aðeins einu stigi á sveitunum.



Sindri stefnir líka í að verða góður skákmaður. Hann tók þátt í sínu fyrsta skákmóti núna um helgina, Risapizzuskákmótinu og var þar yngsti keppandinn. Hann stóð sig frábærlega vel, en á eftir að læra betur að máta. Eins og er, einbeitir hann sér að því hreinsa borðið alveg áður en hann byrjar að máta. Í síðustu skákinni var hann langt kominn með að útrýma andstæðingnum auk þess sem hann var búinn að vinna sér inn 2 auka drottningar og byrjaður að skáka á kónginn þegar hann féll naumlega á tíma og tapaði þar með skákinni. En hann fór ekki tómhentur heim, vann nýjasta geisladisk Jóhanns Helgasonar ;-)

16.2.07

Fróðleikur úr draumalandi Andra Snæs

Súrálsvinnsla er einn sóðalegasti iðnaður heims því eitraður úrgangur er helmingur framleiðslunnar. Álbræðsla er orkufrek og mengandi. En ál er ódýrt og ál er til margra hluta nytsamlegt.

En af hverju er ál ódýrt? Jú, vegna þess að það er ódýrt í framleiðslu. Við Íslendingar leggjum okkar af mörkum með því að bjóða rafmagn á útsöluverði til álfyrirtækjanna. Annars væri ál ekki svona ódýrt. Ál er í beinni samkeppni við önnur efni s.s. stál, gler, pappír, pappa og plast. Oft hefur ál vinninginn vegna eiginleika efnisins, oft hefur ál vinninginn því það er ódýrast.

Um 20% af álframleiðslu heimsins fara í einnota umbúðir, s.s. dósir og álbakka. Árið 2004 hentu Bandaríkjamenn 1,2 milljónum einnota umbúða á haugana. Það er nær fjórföld ársframleiðsla álversins í Reyðarfirði. Ál er ódýrt, það kostar ekkert að henda því í ruslið. Í Bandaríkjunum er ekki skilagjald á áldósir, álframleiðendur vinna gegn því. Það myndi draga úr gróða álfyrirtækjanna. Á einu ári henda Bandaríkjamenn fjórum starfsárum álversins á Reyðarfirði á haugana. Ætli skilagjald á dósir hefði gert Kárahnjúkavirkjun óþarfa?

"Umhverfisvæna" rafknúna álbræðslan á Íslandi veldur því að það kostar ekkert að henda áli. Álframleiðendur hagnast og halda áfram að vinna gegn skilagjaldi á dósum.

15.2.07

Framkvæmdir....

Ég er að hugsa um að færa lögheimilið mitt í BYKO. Alla vega líður mér eins og ég sé búsett þar.

11.2.07

Rauða leðjan


Jamaika

Á sólríku Jamaíku er mikið af rauðum jarðvegi sem kallast báxít. Úr báxítinu er unnið súrál sem er flutt til Íslands, þar sem "vistvæn og endurnýtanleg" orka er notuð til að vinna úr því ál. Álklumparnir eru svo fluttir frá Íslandi út um allan heim og búnir til úr því bílar, flugvélar, áldósir, álpappír ofl. Við viljum ekki lifa í heimi án áls. Ál er frábært - hreint og náttúruvænt.

En bíðið nú við, 4 tonn af jarðvegi gera 2 tonn af súráli sem gera 1 tonn af nýtanlegu áli? Hvað verður um hin 3 tonnin?

Eftir að 4 tonn af báxíti hafa verið skoluð upp úr vítissóda til að framleiða súrál, sitja eftir 2 tonn af rauðri leðju. Basískri og hættulegri leðju. Þessari leðju er safnað í tjarnir og uppistöðulón, þar sem hún smám saman mengar grunnvatn, stöðuvötn og drykkjarvatn. Hreint drykkjarvatn á jamaíka er orðið af skornum skammti og margvísleg heilsufarsvandamál manna og skepnudauði eru rakin til þessarar mengunar. Núna eru jamaíkabúar farnir að spyrna við fótum gegn súrálsvinnslu í landinu.

Vinnsla súráls úr báxíti er orkufrek og Íslendingar eiga nóg af orku. Árið 2003 unnu iðnaðarráðuneytið og landsvirkjun að undirbúningi súrálsverksmiðju á Íslandi. Allir vildu fá þessa lyftistöng í sitt sveitarfélag og kom m.a. til greina að setja verksmiðjuna niður við ósa Laxár í Aðaldal. Verksmiðjan átti að skapa fjölmörg ný störf. Ekkert var rætt um þær 2 milljónir tonna af eitraðri rauðri leðju sem óhjákvæmilega myndu verða til og hvert ætti að setja hana. 2 milljónir tonna er 15 sinnum meira magn en það rusl sem berst til Sorpu á einu ári.

Sem betur fer varð ekkert úr þessum framkvæmdum. Allavega í bili. Óvíst hvaða stóriðjudrauma ríkisstjórnina dreymir á morgun.

Hrollvekjandi staðreyndir úr Draumalandi Andra Snæs Magnasonar.

7.2.07

Súrrealísk fullkomnun


Ég hef alla tíð verið heilluð af júróvisjón keppninni. Samt er ég ekki hommi og ekki aðdáandi glimmerbúninga og samhæfðra dansatriða. Nei, það sem ég fíla við júróvisjón er ehemm... tónlistin. Og núna er ég ekki að plata. Já, í alvöru. Mér finnst ótrúlega gaman að hlusta á júróvisjónlög. Það er eitthvað sjarmerandi við það að hlusta á lög sem hafa verið vandlega valin til að vera fulltrúar og stolt hvers lands og þjóðar. Austuríkismenn með jóðl, Þjóðverjar með gleðipopp í lederhosen, tyrknesk þokkadís með djúpa söngrödd og seiðandi þjóðlagaundirtón, bretar með léttpopp, brosandi danir með ligeglad sveiflu, Malta með þrusuvel sungið ofurvæmið lag, og Íslendingar... já... íslendingar. Tilbúnir að sigra heiminn.

Mörgum hefur þótt þessi júróvisjónlaga áhugi minn undarlegur. Það er í lagi að hafa gaman að júróvisjón til að halda gott partí, það er í lagi að hafa gaman að stemmningunni í kring um þetta, mjög fínt að fylgjast bara með stigagjöfinni - en þeim sem finnast júróvisjónlögin algjört æði - þeir eru skrýtnir. Þeir eru plebbar.
En ég er vön því að hafa skrýtinn tónlistarsmekk. Allt frá því í grunnskóla þegar ég fór að hlusta á U2, Smiths og Dire Straits í stað þess að hlusta á Modern talking og Milli Vanilli. Svo hlustaði ég á Cure, Sykurmolana, Pixies og Nirvana á sama tíma og ég var á kafi í Tchaikovsky og Grieg og allt þetta rann ljúflega inn um eyru mín um leið og ég rúllaði júróvisjónkeppninni frá árinu áður í gegn um vídeótækið.

En þetta varð fyrst skrýtið þegar ég byrjaði ég að vinna með Bjössa slöngu í garðslættinum. Þá var ég byrjuð að hlusta á djass og blús og hann kynnti mig fyrir Sex pistols, Dead Kennedies, Clash og S/h Draumi. Og ég smitaðist. Í hönd fór þungbær tími fyrir foreldra mína og vini. Mér tókst að eignast allt útgefið efni Dr. Gunna með S/h draumi, ásamt fjöldanum öllum af kassettum sem Doktorinn gaf út með eigin efni og alls konar neðanjarðarbílskúrsböndum. Komst meiraðsegja á tvenna tónleika með S/h draumi áður en þeir lögðu upp laupana. Síðan þá hef ég alla tíð borið gríðarlega virðingu fyrir doktornum og verið í óformlegum aðdáendaklúbbi hans.

Þið getið því ekki ímyndað ykkur hversu ólýsanlega mikið það gladdi mig síðasta laugardagskvöld að upplifa þá óvæntu ánægju að hafa lag Dr. Gunna í undankeppni júróvisjón. Og svona flott sungið og performað hjá Heiðu. Þetta hefði einungis getað orðið fullkomara ef í laginu hefði verið klarínettsóló eftir Grieg flutt af Benny Goodman, Anthony vinur minn(and the Johnsons) hefði sungið bakraddir og Kim Deal spilað á bassann. Oh, þá gæti ég dáið hamingjusöm. Súrrealísk fullkomnun.

3.2.07

Í vikulokin

Strákarnir okkar púnkteruðu í lokin og áttunda sætið er niðurstaðan þegar sentimetra munaði að þeir spiluðu um verðlaunasæti. Átrúnaðargoð okkar KA-manna, Alli Gísla, sagði um daginn að liðið hefði ekki nóga hæð. Í dag segir hann að það hafi vantað meiri breidd. Ég hugsa að það hafi e.t.v. líka vantað meiri dýpt :-)

Íslensku bókmenntaverðlaunin voru afhent í gær og gott til þess að vita að Andri Snær fékk verðlaun fyrir Draumalandið. Bókin frábær og verðlaunin vekja aftur athygli á baráttunni gegn stóriðju og álbrjálæðinu. Við Íslendingar teljum að við séum svo fá að við getum hagað okkur eins og okkur sýnist!

Verðlaunaveitingar eru alltaf umdeildar en einhvernveginn ber maður meiri virðingu fyrir bókmenntaverðlaununum en tónlistarverðlaununum. Það hefur tekist einstaklega illa til við val í tónlistinni og t.d. er ekki mikið varið í marga af þeim sem fengu verðlaun í ár.

RUV skipti um fréttastef í vikunni sem er svipað og að Manchester United hætti að spila í rauðu og færi í röndótt af því að það væri "nútímalegt og lifandi" eins og RUV menn segja.

Lóla er byrjuð í fimleikum eins og fram hefur komið og undirritaður í Pilates ásamt fjórtán öðrum kellingum! Ég hafði heyrt nokkra karlmenn tala um að þeir væru í Pilates en alltaf fylgdi með útskýring (afsökun). Menn voru slæmir í baki, jafna sig af meiðslum o.s.frv. Mín afsökun eru meiðsli í öxl og liðþófavandamál í báðum hnjám :-) Annars eru allir léttir í rimanum eftir lasleika síðustu viku og áframhaldandi niðurlægingu einhvers merkasta fótboltafélags Englands, Leeds United. Góðar stundir.

1.2.07

Fimleikahetjur



Ó vá, ótrúlega gaman! Við systurnar skelltum okkur á fimleikaæfingu í Mosó og gjörsamlega fórum á kostum. Handahlaup og arabastökk - pís of keik, eða alla vega leið okkur þannig. Fórum bara beint í heiljarstökkin - bæði á loftdýnu og trampolíni, og það var ótrúlega góð stemning í hópnum - mikið hlegið og klappað.

Við erum ótrúlega hressar eftir æfinguna og ætlum okkur mikla sigra á fimleikasviðinu. Sjáum til samt hversu hressar við verðum í fyrramálið þegar harðsperrurnar og gamla gigtin láta á sér kræla. En við mætum samt pottþétt næst.
Þetta var svooo gaman.

p.s. myndin var ekki tekin á æfingunni í mosó.