3.2.07

Í vikulokin

Strákarnir okkar púnkteruðu í lokin og áttunda sætið er niðurstaðan þegar sentimetra munaði að þeir spiluðu um verðlaunasæti. Átrúnaðargoð okkar KA-manna, Alli Gísla, sagði um daginn að liðið hefði ekki nóga hæð. Í dag segir hann að það hafi vantað meiri breidd. Ég hugsa að það hafi e.t.v. líka vantað meiri dýpt :-)

Íslensku bókmenntaverðlaunin voru afhent í gær og gott til þess að vita að Andri Snær fékk verðlaun fyrir Draumalandið. Bókin frábær og verðlaunin vekja aftur athygli á baráttunni gegn stóriðju og álbrjálæðinu. Við Íslendingar teljum að við séum svo fá að við getum hagað okkur eins og okkur sýnist!

Verðlaunaveitingar eru alltaf umdeildar en einhvernveginn ber maður meiri virðingu fyrir bókmenntaverðlaununum en tónlistarverðlaununum. Það hefur tekist einstaklega illa til við val í tónlistinni og t.d. er ekki mikið varið í marga af þeim sem fengu verðlaun í ár.

RUV skipti um fréttastef í vikunni sem er svipað og að Manchester United hætti að spila í rauðu og færi í röndótt af því að það væri "nútímalegt og lifandi" eins og RUV menn segja.

Lóla er byrjuð í fimleikum eins og fram hefur komið og undirritaður í Pilates ásamt fjórtán öðrum kellingum! Ég hafði heyrt nokkra karlmenn tala um að þeir væru í Pilates en alltaf fylgdi með útskýring (afsökun). Menn voru slæmir í baki, jafna sig af meiðslum o.s.frv. Mín afsökun eru meiðsli í öxl og liðþófavandamál í báðum hnjám :-) Annars eru allir léttir í rimanum eftir lasleika síðustu viku og áframhaldandi niðurlægingu einhvers merkasta fótboltafélags Englands, Leeds United. Góðar stundir.

No comments: