6.8.06

Heimasætan í Hrísey


Við vorum að rölta um í Hrísey þegar Snæfríður bendir á mann í fjarska og segir: "þarna er smíðakennarinn í Rimaskóla". Mér finnst barnið sjá ansi vel svona langt frá sér, en jæja, maður þekkir kennarana sína oft af löngu færi. Spyr hvort hún vilji hlaupa og heilsa upp á hann. "Nei, hann kennir bara eldri bekklingum". Æ, já, ég var búin að gleyma að hún þekkir allt starfsfólk hins risastóra og fjölmenna Rimaskóla. Og þekkir auðvitað alla í sínum árgangi með nafni og getur bent á nær alla krakka hér í hverfinu og sagt "þessi er í fyrsta bekk, þessi er í fjórða bekk".

Þegar hún var lítil stelpa á Hagaborg var hún snögg að læra nöfnin á öllum krökkunum, þekkti hvaða foreldra hvaða krakki átti og hvernig bíl og já, þekkti líka öll fötin þeirra. Ef fóstrurnar voru í vafa um hver átti einhverja flík í óskilum, þá var Snæfríður spurð.

Veit líka ólíklegustu hluti, eins og hvaða bílaumboð flytur inn hvaða bílategundir. Hver er vinsælasti bíll á Íslandi. Hver er með lægstu bilanatíðnina....

Eftir nokkrar fótboltaæfingar með KA í sumar kom hún og taldi upp fyrir mig nöfnin á öllum stelpunum. Gat sagt mér hvað hver og ein var gömul og í hvernig fötum allar voru. Og þegar hún fór að telja upp fyrir mig skóstærðir...... þá varð ég hissa.

No comments: