23.8.06

Montinn?


Sólveig fór í 3ja mánaða skoðunina sína í dag, vigtun, læknisskoðun og fyrstu bólusetninguna. Sindra leist svona mátulega vel á að það ætti að fara að sprauta litlu systur hans og hélt fast í hendina á henni þegar við vorum inni hjá lækninum. Læknirinn var hinn hressasti og fór að spjalla við Sindra meðan hann togaði og potaði í Sólveigu. "Ertu ekki montinn af litlu systur?" Nei, svaraði Sindri alveg blákalt og hélt áfram að klappa litlu systur sinni. Læknirinn varð hálf hissa á hreinskilnu svarinu, en tautaði eitthvað um að það geti nú verið erfitt að eiga lítil systkini.

Eftir skoðunina spurði ég Sindra hvort hann vissi hvað þýddi að vera montinn. Jú, hann vissi það og lék fyrir mig mjög montinn og leiðinlegan strák sem þóttist vita allt og geta allt betur en aðrir. Og svona montinn og leiðinlegur er hann sko alls ekki við hana Sólveigu. Eftir að ég var búin að útskýra fyrir honum flókin blæbrigði íslenskrar tungu vildi hann helst snúa við og tilkynna lækninum að hann væri alveg hæstánægður með systur sína. "Auðvitað er ég alltaf ánægður með hana" sagði hann og skildi ekki hvers vegna einhverjum dytti í hug að spyrja að öðru eins.

Og Sólveig kom vel út úr skoðuninni. Fínn krakki, flott stelpa, var "læknisfræðilega greiningin". Hún er yfir meðaltali í lengd og þyngd, samsvarar sér vel og er alveg að fara að brjóta 6kg múrinn. Og ekki einu sinni smá skæl yfir sprautunni.

No comments: