8.8.06

Nýjustu afrekin

Eftir að Sólveig Embla uppgötvaði á sér hendurnar hefur hún átt mjög annríkt. Á hverjum morgni þegar hún vaknar, athugar hún mjög nákvæmlega hvort hendurnar hafi eitthvað breyst frá því í gær og hvort fingurnir séu nú örugglega allir á sínum stað. Og svo þarf að smakka.

Í einni smökkuninni rataði þumalfingur svona líka ljúflega í munninn og það kunni Sólveig mjög vel að meta. Núna er þumalfingurinn soginn af áfergju við ýmis tilefni. Snuddan, sem var því miður komin ansi neðarlega á vinsældarlistann hennar, hefur færst enn neðar.

En Sólveig hefur líka uppgötvað önnur not fyrir hendurnar sínar. Að leika sér með dót. Hún unir sér mjög vel og lengi á leikteppinu sínu þar sem ýmis frumskógardýr hanga allt í kring um hana, allt innan seilingar. Og svo er hún farin að halda á hringlum og skoða með höndum og munni.

En skemmtilegast er nú samt að rannsaka okkur stærri fjölskyldumeðlimina. Að klappa á kinnar, klípa í nef og tosa í hár er hreint frábær skemmtun :-)

No comments: