10.1.07

Scott Walker er sextíu og fjögra í dag!

Scott er snillingur sem á sér engan líka. Röddin einstök, maðurinn algjör drama queen eins og Lóla segir, óhefðbundnir textar, lögin áhrifarík og sjaldan í poppútsetningum. Maðurinn heitir Noel Scott Engel og fæddist 1943 í Ohio í Bandaríkjunum en flutti snemma til Bretlands og sló í gegn með tveimur öðrum félögum sínum sem The Walker Brothers upp úr miðjum sjöunda áratugnum. Þið munið kannski ekki eftir þeim en það liggja mörg klassísk verk eftir þá eins og The sun ain’t gonna shine Anymore og Make it easy on yourself. Sólóferill hans hófst um 1967 og var hann mjög vinsæll fram til 1970 en eftir frekar slæma dóma fyrir Scott 4 (ekki mjög frumleg nöfn á fyrstu fjórum sólóplötunum!) sem þótti of þung dró hann sig í hlé og hefur hann ekki notið almannahylli síðan. Scott er einrænn og gefur yfirleitt ekki kost á viðtölum. Hann hefur ekki verið afkastamikill og hafa einungis komið út 3 plötur frá honum síðustu 10 árin. Það breytir því þó ekki að eftir hann liggur töluvert af mjög sérstöku og skemmtilegu efni og hann hefur haft mikil áhrif á t.d. David Bowie, Nick Cave, Radiohead, Marc Almond, Jarvis Cocker, Anthony and the Johnssons og Bono. Hann getur verið tormeltur í byrjun en hann launar þeim ríkulega sem nenna að hlusta á hann í gegn. Hann fer oft á ystu brún og hallar ískyggilega nálægt því að vera hallærislegur eða hlægilegur en snilldin er einungis svona mikil að hann getur leyft sér það! Eða er hann bara gaga?

1 comment:

Anonymous said...

Góð samantekt