
Já það var aldeilis sprettur hér á okkur í morgun. Einar vaknaði klukkan 5 til að fljúga vegna vinnunnar til Noregs. Það þýddi að ég þurfti að koma öllum þremur börnunum út úr húsi í morgun, keyra Snæfríði á keramik námskeiðið sitt niðri á Laugarvegi og koma Sindra í leikskólann. Þar sem skipulagning er mitt sérfag þá átti þetta nú ekki að vera mikið mál, bara að vakna nógu snemma og þá er restin pís of keik.
En þar sem að vakna snemma á morgnana er EKKI mitt sérfag, þá vandaðist málið aðeins. Auðvitað vaknaði ég allt of seint, bara hálftíma áður en planið mitt fína gerði ráð fyrir því að fyrirmyndarmóðirin myndi leggja af stað með róleg og yfirveguð, fallega greidd og vel nestuð börnin sín. Hmm..... líklega ekki í dag.
En það er merkilegt hvað maður getur gert mikið á hálftíma þegar allt gengur vel. Alveg jafn merkilegt og hvernig maður getur gert ekki neitt á heilum degi þegar allt gengur illa. Á þessum rúma hálftíma náði Snæfríður að klæða sig, greiða sér, borða morgunmat og smyrja sér nesti. Sindri náði að lúra aðeins lengur, klæða sig, slóra, halda sína daglegu háheilögu morgunmatsstund, og slóra pínulítið meira. Og ég náði að vekja Sólveigu Emblu, skipta á, klæða og gefa að drekka, og .......reka á eftir Sindra.
Þegar við vorum öll komin upp í bílinn gat ég ekki annað en hugsað, þvílíkir dýrgripir þessi börn sem ég á.