28.6.06

Welcome to real life


Já það var aldeilis sprettur hér á okkur í morgun. Einar vaknaði klukkan 5 til að fljúga vegna vinnunnar til Noregs. Það þýddi að ég þurfti að koma öllum þremur börnunum út úr húsi í morgun, keyra Snæfríði á keramik námskeiðið sitt niðri á Laugarvegi og koma Sindra í leikskólann. Þar sem skipulagning er mitt sérfag þá átti þetta nú ekki að vera mikið mál, bara að vakna nógu snemma og þá er restin pís of keik.

En þar sem að vakna snemma á morgnana er EKKI mitt sérfag, þá vandaðist málið aðeins. Auðvitað vaknaði ég allt of seint, bara hálftíma áður en planið mitt fína gerði ráð fyrir því að fyrirmyndarmóðirin myndi leggja af stað með róleg og yfirveguð, fallega greidd og vel nestuð börnin sín. Hmm..... líklega ekki í dag.

En það er merkilegt hvað maður getur gert mikið á hálftíma þegar allt gengur vel. Alveg jafn merkilegt og hvernig maður getur gert ekki neitt á heilum degi þegar allt gengur illa. Á þessum rúma hálftíma náði Snæfríður að klæða sig, greiða sér, borða morgunmat og smyrja sér nesti. Sindri náði að lúra aðeins lengur, klæða sig, slóra, halda sína daglegu háheilögu morgunmatsstund, og slóra pínulítið meira. Og ég náði að vekja Sólveigu Emblu, skipta á, klæða og gefa að drekka, og .......reka á eftir Sindra.

Þegar við vorum öll komin upp í bílinn gat ég ekki annað en hugsað, þvílíkir dýrgripir þessi börn sem ég á.

27.6.06

A day in life

Ég vaknaði einungis einu sinni í nótt, rétt um fimmleytið. Var orðin svöng og reyndi að vekja mömmu með því að umla á hana með hléum. Það vakti engin viðbrögð svo ég fór á annað stigið - stöðugt uml en samt engar grenjur :-) Það dugði enda mamma frekar svefnlétt. Þetta er dásamleg stund og nýt ég hvers dropa, ég met reyndar máltíðir jafn hátíðlega og Sindri bróðir sem gefur sér tíma til að njóta hverrar skeiðar af súrmjólk með cheeriosi í morgunmat. Eftir að hafa fengið mér smá snarl þá ýtir mamma við pabba og biður hann að láta mig ropa og svo skiptir hann um bleiu á mér. Venjulega fæ ég svo að sofa á milli foreldra minna fram á morgun þegar ég vakna rétt fyrir níu. Pabbi og krakkarnir eru farin úr húsi og ég og mamma eigum allan daginn fyrir okkur. Ég fæ oft að borða, við mamma spjöllum saman og tíminn flýgur. Fyrr en ég veit af eru S&S komin heim og farin að stússast í mér. Þegar pabbi kemur heim lítum við á seinni hálfleikinn á England - Ekvador. Við höfðum ákveðið að horfa einungis á seinni hálfleikinn vegna þess að við áttum von á tómum leiðindum. Ég átti erfitt með að halda mér vakandi yfir þessu hæga spili og stífum varnarleik beggja liða og dormaði mest allan leikinn. Um 9 - 10 leytið fer mig að syfja verulega og þrá kvöldsnarlið. Ég lét mömmu vita af með því að veina svolítið og það þurfti ekki að segja henni það tvisvar. Við mamma tökum okkur yfirleitt góðan tíma fyrir háttinn og ég fæ að drekka oft og mörgum sinnum. Meira síðar, góða nótt.

24.6.06

Lið verður til

Nú er riðlakeppninni lokið og alvaran/spennan tekin við. Undirbúningur fyrir keppnina og sá tími sem keppnin stendur er nánast tveir mánuðir. Á þessum langa tíma ganga liðin í gegnum ýmislegt og lið með sterkan karakter (þó þau virki ekki sannfærandi í byrjun) eflast með hverjum leik og ná langt. Nú er að sjá hvaða lið ná að þróa leik sinn áfram og hafa þann karakter til að þola spennuna. Englendingar hafa ekki verið með betra lið síðan 1970 og þrátt fyrir að hafa spilað illa eiga þeir smá möguleika á að komast í undanúrslit. Argentína er með frábært lið og ætti að komast í undanúrslit og það sama má segja með Brassana. Þjóðverjar og Ítalir hafa spilað vel og Ítalía ætti að komast í undanúrslit en það verður hrikalega erfitt fyrir Þjóðverja að slá Argentínumenn út í 8 liða úrslitum (þ.e. ef þeir slá út Svía). Spánverjar hafa verið magnaðir og mæta nú mistækum Frökkum sem verður frekar erfitt fyrir þá. Spánverjar eiga að mínu mati ágætan möguleika á að komast í undanúrslit en Frakkar þurfa töluverða heppni ef þeir ætla þangð. Hollendingar og Portúgalir eru með góð lið sem sem þurfa þó að bæta leik sin ef þau ætla í undanúrslit(mætast í 8) en bæði lið hafa það sem til þarf. Önnur lið teljast til minni spámanna, Sviss minnir nokkuð á Grikkland 2004, Gana er með kraftmikið lið en hin liðin munu eiga í vandræðum. Undirritaður hefur reyndar misst nokkuð úr boltanum vegna vinnu og almennu lífstússi. Reyndar er það þannig að ég man meira frá HM 1982-1994 heldur en síðustu tveimur keppnum. Má rekja það til minni tíma til að horfa á fótbolta og örlítið breyttu lífviðhorfi eða þannig sko.

23.6.06

Vinna Gana eða Mexíkó HM?

Ég er þeirrar skoðunar að úrslit á HM (síðustu áratugi) séu ekki eins ófyrirséð og t.d. í Evrópukeppninni þar sem t.d. smáþjóðirnar Grikkir og Danir hafa unnið öllum að óvörum. Ég er ekki að segja að “besta” liðið hafi alltaf unnið, til dæmis vann Ungverjaland ekki 1954, Holland ekki 1974 eða 1978, Brasilía ekki 1982, Frakkland ekki 1986 og svo framvegis. Það sem ég á við er að það er ávallt eitt 3-5 bestu liðunum sem hafa unnið. Það er helst að lið Argentínu árið 1986 sé undantekning á reglunni en þar var um að ræða miðlungslið fyrir utan Diego nokkurn Maradona. Breskir veðbankar töldu eftirfarandi þjóðir líklegastar til að vinna gullið fyrir keppnina: 1.Brasilía, 2. England, 3. Ítalía, 4. Þýskaland og 5. Argentína. Hér þarf að hafa í huga að Englendingar eru yfirleitt of bjartsýnir á velgengni sinna manna. Í dag er röðin eftirfarandi: 1.Brasilía, 2.Argentína, 3.Þýskaland 4-6. England, Ítalía og Spánn. Það eina sem hefur breyst er að Spánverjar þykja nú koma til greina.

21.6.06

Brosir og hjalar


Það er alveg ótrúlegt hvað lítil börn geta brætt mann með sínu tannlausa brosi. Og hún Sólveig Embla svíkst ekki um það. Hún brosir mest til pabba síns, finnst hann alveg ægilega fyndinn. Og Snæfríður og Sindri gleðjast mikið þegar þau fá bros frá henni, enda krúttlegasta bros í heimi að okkar mati. Og svo brosir hún til mömmu sinnar auðvitað, sem er að rifna úr stolti.

En þrátt fyrir þessa brostaktík þá er hún Sólveig Embla alla jafna frekar alvarleg ung dama. Horfir athugul í kring um sig og hnyklar augabrúnirnar hugsandi. Þung á brún. Horfir svo fast á okkur og segir ákveðið: "agúúú" eða "dgsllsg" eða jafnvel "dæææ". Við erum heppin því Snæfríður og Sindri eru mjög góð í því að túlka barnahjal og það er alveg ótrúlegt hvað sú stutta hefur frá mörgu merkilegu að segja.

María Katrín, Sólveig Embla og Rúnar


Rúnar bróðir og fjölskylda glöddu okkur með nærveru sinni hérna um daginn. Þau eru alltof sjaldséðir gestir hér á Íslandi eftir að þau fóru til Danmerkur í nám, en svona er þetta, það ku ekki vera svo slæmt þarna í landi baunanna.

Til hamingju Rúnar með útskriftina og nýju vinnuna!

Arnar Haukur, Sindri og Guðmundur

Sjálfvirkir mosatætarar?

Ólafur Þorri KR-ingur

Sumar


Jæja, þá er loksins komið almennilegt veður. Í tilefni þess fór ég út á stuttermabol og sló grasblettinn. Það er búinn að vera einhver misskilningur í gangi með þetta sumar, þemað er stuttbuxur og sólvörn en ekki stígvél og húfa. Munið það, veðurfræðingar góðir.

Vonandi er kvefpestin leiðinlega líka að kveðja okkur í Hrísrimanum. Það er líka annar misskilningur sem er í gangi. Maður á ekki að vera með kvef og pest á sumrin heldur með grill og bjór. Ég held allavega að ég sé að losna við þessa leiðindaóværu og vonandi Sólveig Embla líka. Hún er að vísu enn alveg óskaplega stíbbluð í nebbanum á kvöldin og á erfitt með að sofna, en er annars öll að koma til. Hjúkkan sem kom til að vigta hana í gær var allavega ægilega ánægð með þetta hálfa kíló sem hún hafði þyngst um síðustu tvær vikur. Enda horfum við bara á hana vaxa og dafna dag frá degi. Glæsileg ung dama.

Einar og Sindri eru nokkrum dögum á eftir okkur í þessari pest og eru með hálsbólgu og hósta í vinnunni og leikskólanum. Snæfríður slapp einna best og stakk af úr pestabælinu í sumarbúðir skáta á Úlfljótsvatni.

16.6.06

Alltaf gaman að svona pælingum....

Spurning 1:
Þú hittir ólétta konu sem á 8 börn fyrir. Þrjú þeirra eru heyrnarlaus, tvö eru blind, eitt er fatlað og eitt með sýfilis; Myndirðu mæla með því að hún færi í fóstureyðingu eða myndirðu ráðleggja henni að eiga barnið ?

Spurning 2:
Segjum að nú væri alþjóðakosning og kjósa ætti leiðtoga heimsins. Þrír aðilar eru í framboði og þitt atkvæði ræður úslitum.
Frambjóðandi A:
Er í samkrulli við spillta stjórnmálamenn og ráðfærir sig við stjörnufræðinga. Hann hefur átt tvær hjákonur, hann keðjureykir og drekkur 10 Martini drykki á dag.
Frambjóðandi B:
Hefur verið rekinn úr starfi tvisvar, sefur til hádegis. Notaði Ópíum í framhaldsskóla og drekkur hálfa viskýflösku á hverju kvöldi.
Frambjóðandi C:
Hann er verðlaunuð stríðshetja og grænmetisæta. Hann reykir ekki, fær sér bjór stöku sinnum og hefur aldrei staðið í framhjáhaldi

Hvern af þessum frambjóðendum myndirðu kjósa ?

Frambjóðandi A er Franklin D. Roosevelt
Frambjóðandi B er Winston Churchill
Frambjóðandi C er Adolf Hitler

Og ef þú ert að velta fyrir þér að senda konuna úr spurningu eitt í fóstureyðingu þá varstu að drepa Ludwig Van Beethoven.

Hrísrimablús

Allir í hrísrimanum fengu einhvern kvefskít í síðustu viku og lágu þær mæðgur Lóla og Sólveig eftir. Nebbinn á Sólveigu litlu stíflaðist og hefur það angrað hana, sérstaklega á nóttunni. Stelpurnar eru á batavegi og verða sennilega orðnar leikhæfar eftir helgina. Annars er það að frétta af Sólveigu að hún er farin að brosa svolítið þó hún sé yfirleitt frekar alvarlega þenkjandi. Einnig hjalar hún orðið svolítið en henni liggur nú ekki hátt rómurinn þeirri stuttu. Sæmilega hefur verið fylgst með HM en EPS hefur misst af nokkrum mikilvægum leikjum vegna vinnu, ferðalaga og heimilsstarfa. Hér er vel stutt við hollenska liðið en þeir hafa ekki enn sínt sínar bestu hliðar. Ef þeir ætla sér lengra verða þeir að laga spilið og fá Robben til að gefann! Það er alls ekki samkvæmt hollenskri leikhefð að halda boltanum svona lengi. Þau lið sem hafa virkað öflug eru Argentína, Tékkland, Spánn og Ítalía. Frakkar, Englendingar, Svíar hafa spilað leiðinlegan bolta og Brassar voru með tvo farþega frammi en þeir eru samt besta liðið ásamt Argentínu. Ekki vanmeta Þjóðverja og Króata gott fólk þau gætu farið langt....

12.6.06

Roberto á La Fontanella


Þessi mynd var tekin í fyrra í Róm á veitingahúsinu La Fontanella, sem er alveg örugglega uppáhalds veitingahúsið okkar. Þangað fórum við þrisvar sinnum á jafnmörgum dögum í Rómarferð okkar í fyrra, í fylgd með nokkrum liðsmönnum Rotterdamska fótboltaliðsins, Antibarbari.

Síðasta heimsóknin var eftirminnilegust. Þegar við komum inn var okkur tekið eins og kóngafólki, Roberto sjálfur og allt starfsfólk snérist í kring um okkur, bugtuðu sig og beygðu, hlóðu á okkur sérréttum, blómum, besta víni hússins og hvaðeina. Rússnesku vinir okkar sem voru með okkur kunnu vel við þetta og tæmdu alla vega þrjár flöskur af hússins besta grappa - og sá ekki á þeim. Aðrir gestir staðarins horfðu forviða á okkur, hvaða merkisfólk þetta væri eiginlega. Líklega leit þetta út fyrir að rússneska mafían væri að heimsækja þá ítölsku........

Og auðvitað var Roberto og La Fontanella heimsótt aftur, nokkrum sinnum, í Rómarferð Einars og Antibarbari um helgina. Og urðu auðvitað fagnaðarfundir.

Rotterdam liðið ('05)

Róm

Ég kom í nótt frá fótboltamóti mba skóla í Róm en ég var þar í þrjá daga og tvær nætur. Við riðum ekki feitum hesti frá mótinu, enduðum með eitt jafntefli í þremur leikjum. Það gerir þó ekkert til því við fögnum alltaf vel kvöldið fyrir leik, svona rétt til vara. Meiðsli setja mark sitt á ellihrumt Rotterdam Antibarbariliðið og spilaði ég sjálfur nánast ekkert vegna þess að vinstra hné mitt neitar að leyfa mér að hlaupa eftir uppskurð á liðþófa fyrir tveimur mánuðum. Ég einbeitti mér því meira sem þjálfari og liðstjórnandi og galdraði fram hverja snilldarleikfléttuna á fætur annarri. Á næsta ári stendur til að gefa Róm frí og taka þátt í old boys mótinu á Akureyri.

8.6.06

Bubbi fimmtugur og....
Snæfríður og Sindri virtust hafa nokkurn áhuga á afmælistónleikum Bubba. Mjög fljótlega fóru þau að spyrja um Stál og hnífur sem er þeirra uppáhaldslag með kallinum. Það eru þó ekki nema tvö ár síðan þau þekktu einungis einn Bubba; Bubbi byggir. Þegar líða tók á tónleikana söng Bubbi ítrekað eitthvað á þá leið “lofið drottinn”. Sindri horfði hugsi á og spyr síðan mömmu sína; “er hann ekki að stagla mamma?”. Það rifjast upp hjá mér að Bubbi á það til, rétt eins og Sindri. Það er reyndar athyglisvert að hugleiða aðeins vörumerkið Bubbi Morthens. Hann virðist vera orðin Metro-Sexual maður a la Beckham. Tónleikarnir voru ágætir á köflum en leiðinlegt hvað þeir voru mikið kommersíal og Idol fnykur yfir öllu. Til hamingju með afmælið Jobbi (06.06.06)!

6.6.06

Ég heiti Sólveig Embla Einarsdóttir


Sólveig er gamalt og gott íslenskt nafn. Sól er eins og sólin sjálf, minna mátti það nú ekki vera til að halda í við birtuna í nöfnum Snæfríðar Birtu og Sindra Heiðars. Og -veig þýðir kraftur eða máttur. Semsagt máttur sólarinnar. Og svo er það Embla, sem er nafn sem hefur verið í uppáhaldi hjá okkur foreldrunum lengi. Og Embla var í norrænu goðafræðinni fyrsta konan sem var sköpuð.

En reyndar er það tilviljun að öll nöfn barnanna okkar byrja á S..... skemmtileg tilviljun það!