27.6.06

A day in life

Ég vaknaði einungis einu sinni í nótt, rétt um fimmleytið. Var orðin svöng og reyndi að vekja mömmu með því að umla á hana með hléum. Það vakti engin viðbrögð svo ég fór á annað stigið - stöðugt uml en samt engar grenjur :-) Það dugði enda mamma frekar svefnlétt. Þetta er dásamleg stund og nýt ég hvers dropa, ég met reyndar máltíðir jafn hátíðlega og Sindri bróðir sem gefur sér tíma til að njóta hverrar skeiðar af súrmjólk með cheeriosi í morgunmat. Eftir að hafa fengið mér smá snarl þá ýtir mamma við pabba og biður hann að láta mig ropa og svo skiptir hann um bleiu á mér. Venjulega fæ ég svo að sofa á milli foreldra minna fram á morgun þegar ég vakna rétt fyrir níu. Pabbi og krakkarnir eru farin úr húsi og ég og mamma eigum allan daginn fyrir okkur. Ég fæ oft að borða, við mamma spjöllum saman og tíminn flýgur. Fyrr en ég veit af eru S&S komin heim og farin að stússast í mér. Þegar pabbi kemur heim lítum við á seinni hálfleikinn á England - Ekvador. Við höfðum ákveðið að horfa einungis á seinni hálfleikinn vegna þess að við áttum von á tómum leiðindum. Ég átti erfitt með að halda mér vakandi yfir þessu hæga spili og stífum varnarleik beggja liða og dormaði mest allan leikinn. Um 9 - 10 leytið fer mig að syfja verulega og þrá kvöldsnarlið. Ég lét mömmu vita af með því að veina svolítið og það þurfti ekki að segja henni það tvisvar. Við mamma tökum okkur yfirleitt góðan tíma fyrir háttinn og ég fæ að drekka oft og mörgum sinnum. Meira síðar, góða nótt.

No comments: