
Jæja, þá er loksins komið almennilegt veður. Í tilefni þess fór ég út á stuttermabol og sló grasblettinn. Það er búinn að vera einhver misskilningur í gangi með þetta sumar, þemað er stuttbuxur og sólvörn en ekki stígvél og húfa. Munið það, veðurfræðingar góðir.
Vonandi er kvefpestin leiðinlega líka að kveðja okkur í Hrísrimanum. Það er líka annar misskilningur sem er í gangi. Maður á ekki að vera með kvef og pest á sumrin heldur með grill og bjór. Ég held allavega að ég sé að losna við þessa leiðindaóværu og vonandi Sólveig Embla líka. Hún er að vísu enn alveg óskaplega stíbbluð í nebbanum á kvöldin og á erfitt með að sofna, en er annars öll að koma til. Hjúkkan sem kom til að vigta hana í gær var allavega ægilega ánægð með þetta hálfa kíló sem hún hafði þyngst um síðustu tvær vikur. Enda horfum við bara á hana vaxa og dafna dag frá degi. Glæsileg ung dama.
Einar og Sindri eru nokkrum dögum á eftir okkur í þessari pest og eru með hálsbólgu og hósta í vinnunni og leikskólanum. Snæfríður slapp einna best og stakk af úr pestabælinu í sumarbúðir skáta á Úlfljótsvatni.
No comments:
Post a Comment