11.12.07

Bráðum koma blessuð jólin...



... spilaði Sindri eins og engill á tónleikum í Grafarvogskirkju á föstudaginn. Hann var alveg ófeiminn við að koma fram og tilkynnti stoltur að hann hefði ekkert ruglast í nótunum.
Sindri er búinn að vera mjög ánægður í flautunni í vetur, en langar núna eftir áramót að byrja á píanói. Við vonum að hann komist að, og Sindri sjálfur æfir stíft "góða mamma", alla daga á píanóið.

Geimverur á öskudaginn



Snæfríður byrjaði í leiklist í vetur og hefur haft mjög gaman af því að mæta í það. Afraksturinn af starfinu var sýndur í austurbæjarbíói um daginn, hópurinn hennar lék leikrit um geimverur á öskudaginn. Við foreldrarnir vorum ægilega stolt yfir því að hún gæti munað allan þennan texta og leikið hann hátt og skýrt þannig að heyrðist um allt bíó. Best var að sjá hvernig leikgleðin geislaði af henni.

Frænkur



Það er gaman að vera búin að fá Rúnar bró og fjölskyldu heim frá Danmörku. Arnar Haukur og María Katrín gistu hérna um daginn, og hérna eru sætu frænkurnar saman uppí rúminu hennar Snæfríðar að reyna að sofna. Sólveigu fannst þetta mikið stuð, frábær leikur, en það hvarflaði ekki að henni að fara að sofa, í alvörunni? að sofna? í miðjum skemmtilegum leik? Skrítið hvað þessu fullorðna fólki dettur í hug.

29.11.07

Bleikt og blátt

Fyrir nokkru var gerð rannsókn úti í heimi. Helmingur nýfæddra barna á fæðingardeild var klæddur í blátt og hinn helmingurinn í bleikt, jafnmargar stelpur og strákar voru í bleiku, og það sama gilti um bláa litinn, jafnmargar stelpur og strákar klæddust honum. Og svo var hegðun fullorðna fólksins skoðuð.

Bláklæddu börnin þóttu alveg sérstaklega hraustleg, kröftug og sterkleg og það var hnoðast meira með þau.
Bleikklæddu börnin þóttu alveg sérstaklega sæt, ljúf og róleg og það var farið með þau eins og postulínsdúkkur.

Merkilegt? Eða hvað?

Hversu stór hluti af kynjamuninum er meðfæddur og skrifast á mismunandi hormónabúskap? Og hversu stór hluti orsakast af félagsmótun frá unga aldri svo maður falli inn í rétt kynhlutverk? Þetta er bara ómögulegt að vita.



Það myndi líklega ekki hafa úrslitaáhrif á þróun jafnréttis þótt öll börn yrðu klædd í litríka röndótta galla við fæðingu í stað þeirra bleiku og bláu? En allavega yrði það svona smá "statement" um að við gerum okkur grein fyrir að stór hluti af félagsmótuninni er ómeðvitaður, og að við ætlum aðeins að hugsa okkur um hvaða gildi við innprentum börnunum okkar.

Og mér þætti það alveg óendanlega gaman, ef tækist að breyta viðhorfum samfélagsins, þannig að hefðbundnir "kvenlegir" eiginleikar myndu fá uppreisn æru og verðskuldaða virðingu, alveg eins og hefðbundnir "karllegir" eiginleikar hafa. Þá myndi maður aldrei aftur fá kjánahroll þegar foreldrar lýsa því yfir hlæjandi og stoltir að stelpan þeirra sé sko algjör strákastelpa, alltaf skítug upp fyrir haus og í slagsmálum við strákana, og viðmælendurnir slá á bakið á þeim og segja "flott, sú er dugleg". Á meðan strákaforeldrarnir segja hljóðlega "jah, strákurinn okkar er voða rólegur, finnst mest gaman að föndra og leika sér með dúkkur" og það slær þögn á mannskapinn. Eftir vandræðalegu þögnina spyr einhver áhyggjufullur "eruð þið búin að prófa að setja hann í fótbolta?".

En fyrirspurn Kolbrúnar á Alþingi er samt á villigötum, kannski svosem ekki í fyrsta sinn sem þingmenn eiga erfitt með að átta sig á starfsvettvangi sínum og rugla saman löggjafarvaldi og framkvæmdarvaldi. Eða finnst henni að Alþingi eigi að lögfesta reglur um klæðnað á Landspítalanum? Eigum við þá ekki í leiðinni að banna forljóta stimpilinn á öllum nýfæddum börnum "Eign þvottahúss ríkisspítalanna"? Það væri sko þjóðþrifamál! Eða þannig...

Samt er líka ömurlegt hvernig þessi vanhugsaða fyrirspurn vindur upp á sig. Nú keppast allir við að tala um hversu gagnslausar þessar þingkonur okkar séu, "- og erum við að borga þeim fyrir þetta! fuss!", "þessar konur á þingi ættu að fara að einbeita sér að einhverjum almennilegum málum!" osfrv. Alveg eins og þetta sé í fyrsta sinn sem einhver leggur fram bjánalega fyrirspurn á Alþingi. Aldrei heyrir maður sagt þegar Árni Johnsen skandaliserar eitthvað "þessir þingkarlar okkar eru alveg gagnslausir, ættu bara að hypja sig aftur heim til sín allir með tölu!". Neibb, svona er bara sagt um konur.

En samt pínu leiðinlegt hvernig málið er tilkomið, ef hún Kolbrún hefði skrifað blaðagrein um málið, eða sent erindi til landspítalans um spítalafatnað, þá hefði ég stutt málið heilshugar, því mér finnst að við megum alveg setja upp gleraugun og skoða þessa ómeðvituðu félagsmótun í kynhlutverkin og hvernig við gildishlöðum hefðbundna "kvenlega" og "karlega" eiginleika. En mér finnst samt klæðnaður ungbarna á landspítalanum ekki vera málefni löggjafarvaldsins, só sorrí.

23.11.07

Gæsahúð

"Af hverju komstu svona seint heim úr skólanum í dag, Snæfríður mín? " spurði móðirin, sem margsinnis er búin að brýna fyrir börnunum sínum um að láta vita af sér ef þau fara heim með einhverjum vinum sínum eftir skóla.

"Ég var á æfingu með synfóníuhljómsveitinni" svaraði sú stutta. "Ha? synfóníu - hvað? " spurði móðirin, sem hefur heyrt ýmsar hugmyndarríkar skýringar á seinkun og gleymsku - en aldrei þessa. Og jú, það kom upp úr dúrnum að meðlimir synfóníuhljómsveitarinnar voru alla þessa viku í Rimaskóla, að vinna með krökkum í einum 6. bekknum við að semja og æfa tónverk. Þau sem kunnu á hljóðfæri notuðu þau, hinir spiluðu á trommur og xylofóna. Nokkrir krakkar úr 5. og 4. bekk fengu þar að auki að vera með, og spila á hljóðfærin sín, og þannig fékk trompetleikarinn hún Snæfríður og bekkjarsystir hennar Svana, að æfa með synfóníunni.



Svo var endað með glæsilegum tónleikum, fyrst spilaði synfóníuhljómsveitin nokkur lög, og enduðu auðvitað með "Á Sprengisandi" og allavega ég fékk gæsahúð, útsetning Páls Pampichlers vekur upp gamlar og góðar minningar. Og svo komu krakkarnir á svið, nokkrir meðlimir synfóníunnar komu sér fyrir inn á milli, til hliðar og bakvið, en krakkarnir fengu sviðsljósið. Þau höfðu notað vikuna í að semja tónverk, þar sem nokkur grunnstef voru endurtekin reglulega í mismunandi hljóðfærahópum, sóló tekin á víxl og svo var allt sett á fullt með öllu genginu á full blast, og svo færðust stefin aftur á milli hljóðfærahópanna. Gæsahúðin gerði aftur vart við sig. Svo voru þau búin að semja nýjan texta við "singing in the rain" og sungu eins og englar: "Á íslensku ég syng", innblásin af degi íslenskrar tungu. Glæsilegt framtak á allan hátt og frábær skemmtun. Skólastarf til fyrirmyndar. Takk fyrir mig og mína!


Glöggir lesendur geta séð að lengst til vinstri á myndinni er fyrrverandi leigusalinn okkar á Kvisthaganum, hann Brjánn fagottleikari, það var óvænt ánægja að hitta hann í skólanum.


Sindri og vinir hans voru mættir í góðu stuði.


Bekkjarsystur Snæfríðar gerðust undir eins barnapíur fyrir Sólveigu, og henni finnst ótrúlega gaman í skóla.

Nammi og pleisteisjon



Hjálparstarf kirkjunnar opnaði um daginn heimasíðu, http://www.gjofsemgefur.is. Þetta er mjög sniðug hugmynd, í staðinn fyrir að gefa fjölskyldu og vinum einhvern óþarfa í jólagjöf, þá kaupirðu eitthvað handa fátæku fólki úti í löndum og sendir gjafabréfin til fjölskyldu og vina. Þú getur t.d. frelsað barn úr skuldaánauð fyrir 5000 kr, keypt skóladót fyrir 2000 kr, gefið geit fyrir 2500 kr, heint vatn fyrir 35 manns kostar 5000 kr osfrv. Og svo er hægt að kaupa "ójólalegri" gjafir eins og kamar fyrir 6500 kr og kassa af smokkum fyrir 2500 kr. Mjög gott mál og vonandi gengur þetta vel hjá þeim.

Þið getið skoðað frétt um málið hérna: http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1302365. Fréttin er stórfurðuleg og sýnir fjölmiðlakynningu kirkunnar á verkefninu. Byrjar með kertaljósi, svo staulast fram hópur af íslenskum rauðklæddum jólasveinum, svo kemur gamla tröllskessan hún Grýla og svo er fréttin búin.

Þetta var semsagt leiðin sem kirkjan valdi til að kynna verkefnið sitt. Heiðnir jólasveinar, kerti og gömul tröllskessa. Ekkert biblíu eða jesútengt. Kannski eitthvað svipað og ef Latibær væri með kynningu og gæfi öllum krökkum nammipoka og pleisteisjón.

Var það ekki í fyrra sem einhver presturinn lýsti því yfir í barnamessu að jólasveinninn væri bara plat? Allavega þá eru þeir mættir í ár, ásamt Grýlu mömmu sinni, og byrjaðir að vinna fyrir kirkjuna. En hvað varð eiginlega um krossmörk, engla og jesúmyndir - er svoleiðis alveg dottið úr tísku í kirkjunni? Er kannski hjálparstofnunin með þessu bara að reyna að láta lítið bera á kristilega hluta hjálparstarfsins? Fólk er nefnilega alveg steinhætt að vilja gefa peninga til trúboðs eftir hörmulega reynslu af því um allan heim, og þess vegna eru hinir sívinsælu jólasveinar og grýla notuð til að breiða yfir heilagleikann hjá stofnuninni. Því kirkjan er alls ekki hætt trúboði meðal heiðingja í afríku, þótt hún vinni líka að ýmsum öðrum góðum og gagnlegum verkefnum í leiðinni.

Semsagt, bæði skrýtið mál og líka mjög gott mál.

19.11.07

Snæfríður 10 ára!

Nú er hún Snæfríður mín orðin 10 ára, yndisleg 10 ár hjá yndislegri stelpu :-)


Við byrjuðum á því að bjóða stelpunum í bekknum hennar í veislu á föstudaginn. Snæfríður bakaði súkkulaðikökuna alveg sjálf og eins og venjulega var hún búin að hanna kökuskreytingarþema, kökurnar voru 3 bleik hjörtu með silfurlitum sælgætiskúlum. Stílhreint og stílíserað, bleikt og glansandi :-) 10 ára bekkjarafmælið fór ótrúlega vel fram, stelpurnar rólegar og glaðar, bingó, stoppdans, morðingjaleikur, kaka og pizzuveisla.


Sólveig hefði ekki getað verið glaðari þótt hún hefði átt afmæli sjálf. Hún er sannfærð um að hún sé 10 ára eins og hinar stelpurnar og tók þátt í öllum leikjunum, hjálpaði til við að opna pakka og naut sín vel við matarborðið við kökuát og pizzuát.


Svo var haldin stórveisla fyrir fjölskyldu og vini, og eins og venjulega var þröng á þingi hérna hjá okkur. En mikið eigum við skemmtilega vini og fjölskyldu, það er alltaf jafn gaman þegar allur þessi hópur kemur saman. Frjósemin í hópnum er líka ótrúleg, í hverri veislu bætist nýtt barn í hópinn.

Kolfinna



Aggi og Þórunn gáfu litlu dóttur sinni fallegt nafn um síðustu helgi, Kolfinna Arnarsdóttir heitir sú stutta. Hún var skírð í barnamessu í hverfiskirkjunni þeirra og svo var glæsileg skírnarveisla heima hjá þeim. Til hamingju með nafnið, Kolfinna, og til hamingju með Kolfinnu, Aggi, Þórunn og Heba.

Sólveig skemmti sér vel í barnamessunni, fílaði alveg í botn að vera í svona krakkahópi. Flott mynd hérna, öll börnin fylgjast með messunni, en Sólveig fylgist með krökkunum.


Svo pósaði hún fyrir framan altarið

18.11.07

Körfubolti



Sindri byrjaði að æfa körfubolta í haust og það er svona rosalega gaman. Allt frá fyrstu æfingunni ríkti mikil gleði, fyrsta æfingin sem var lögð fyrir 20 kraftmikla 7 ára gaura, var "óþekktaræfingin". "Jæja, strákar" sagði þjálfarinn. "Þegar ég segi til, þá vil ég að þið séuð eins óþekkir og þið getið, hlaupið um, öskrið, driplið boltunum og bara verðið alveg rosalega óþekkir". "Og svo þegar ég blæs í flautuna, þá stoppið þið og hafið alveg hljótt". Svo byrjaði "óþekktaræfingin", strákarnir voru með læti og þjálfarinn blés í flautuna og allir stoppuðu. "Uss, strákar, þið getið nú verið miklu óþekkari en þetta, byrjið aftur" Strákarnir fóru alveg á kostum í ólátum og óþekkt, og svo þegar þjálfarinn blés í flautuna, datt allt í dúnalogn. "Vá, mikið svakalega voruð þið óþekkir hló þjálfarinn". Og strákarnir hlógu ánægðir og sáttir og tilbúnir til að hlýða flautunni. Þar með voru agavandamálin leyst og kominn vinnufriður fyrir alls konar driplæfingar. Þjálfarinn þurfti bara að flauta og allt datt í dúnalogn.

Svo var farið á fyrsta körfuboltamótið um síðustu helgi, Hópbílamót Fjölnis í Grafarvogi. Strákarnir spiluðu fimm 10 mínútna leiki, þar sem ekki voru dæmd skref nema þau væru alveg hrikalega mörg, engin stig talin, enginn vann og enginn tapaði. En strákarnir auðvitað töldu stigin sín sjálfir, börðust af hörku og vissu alveg hvort þeir voru að vinna eða tapa, samt gott að geta skýlt sér á bak við stigaleysið þegar komu tapleikir, enda var ekker gull silfur og brons í boði, heldur flottur peningur fyrir alla. Og það var líka margt annað að hugsa um á milli leikja, allir fóru saman í bíó, allir fóru saman í sund, það var kjötbolluveisla í Rimaskóla, blysför og kvöldvaka, mjólk og skúffukaka fyrir svefninn og verðlaunaafhending og pizzuveisla í lokin. Heim af mótinu komu bara stoltir sigurvegarar.

7.11.07

Vagg og velta


Við Snæfríður eyddum síðustu helgi á fimleikamóti í Vestmannaeyjum. Þetta var alveg ágætis ferð, Snæfríður stóð sig vel í sínum æfingum, góð stemmning í hópnum og þétt dagskrá.

En ojbara hvað það var ekki gaman að sigla með Herjólfi. Á leiðinni út í eyjar varð helmingur liðsins sjóveikur, en líklega varð ábyrga mamman í ferðinni, ég sjálf, einna sjóveikust. Lengst af hékk ég ælandi út fyrir borðstokkinn, svo náði ég að staulast inn fyrir dyr og hékk þar örmagna og ælandi það sem eftir var ferðar. Snæfríður ældi einu sinni og hresstist svo, en var svo hrædd um aumingja sjóveiku mömmu sína, að hún fékk mig til að lofa því að sigla aldrei aftur með Herjólfi. Þannig að ég pantaði fyrir okkur flug heim á sunnudaginn.

Þegar við komum á flugvöllinn komumst við að því að það var ófært vegna veðurs, og sífellt bætti í vindinn. Flugmaðurinn var hálf sorrý yfir þessu, en bauðst til að skutla okkur bara í staðinn niður í Herjólf sem átti að fara á svipuðum tíma. Flott gestrisni hjá eyjamönnum. Og við fórum aftur um borð í Herjólf hryllilega. Ég kom mér fyrir í sæti og hreyfði mig ekki alla ferðina nema bara rétt til að æla, og þraukaði ferðina þannig. Ég skildi Snæfríði eftir í umsjón sjóhraustra fimleikaþjálfara - að ég hélt. En nei, nú varð allt sjóhrausta fólkið líka sjóveikt. Það urðu bara allir sjóveikir. Snæfríður ældi 8 sinnum í ferðinni og lá lengst af bjargarlaus frammi á gangi við klósettin. Óvá hvað við erum ekki gott efni í sjómenn!

Við erum núna rétt að losna við eftirköstin, sjóriðuna, ógleðina, hausverkinn og þreytuna. Og ég get lofað því að ég fer aldrei ALDREI aftur í Herjólf, nema kannski KANNSKI í logni og blíðu. Og bara BARA ef ég á gott erindi út í eyjar.

24.10.07

Smámynt


Um daginn vorum við Sólveig á einhverjum þvælingi og ákváðum að setjast inn í Þórsbakarí og fá okkur smá hressingu. Á móti okkur tók eldri kona, með virðulega upp sett hár og í rósóttum slopp, svona sem er bundinn saman á hliðinni. Hún byrjaði á að bjóða okkur hlýlega góðan daginn, og mér fannst samstundis eins og ég væri komin í heimsókn til gamallar frænku. Ekkert svona "horft-út-í-loftið-mér-er skítsama-g..daginn" heldur virkilega hlýleg kveðja. Góðan daginn.

Við pöntuðum okkur kaffibolla, trópí og kleinu, borguðum og settumst niður. Og fylgdumst með gömlu virðulegu afgreiðslukonunni taka við leiðbeiningum frá unglingsstelpu um hvernig búðarkassinn virkaði. "Já, á ég svo að styðja á þennan hnapp" sagði sú virðulega. "Já, ýttu bara áennan takka" sagði sú unga. Og sú gamla studdi virðulega og yfirvegað á hina og þessa hnappa um leið og hún afgreiddi fólk af rólegri og hlýlegri festu. "Okkur vantar smámynt" sagði sú virðulega hæglætislega við þá ungu, um leið og hún töfraði skiptimynt upp úr veskjum viðskiptavinanna. "Já, þetta er ferlegt, okkur vantar alltaf klink" sagði sú unga.

Mér leið eins og ég væri komin til kaffihúsahimna. Alveg þangað til ég beit í kleinuna. Þetta var sú allra versta kleina sem ég hef smakkað, bakarinn greinilega á svaka dropafylleríi þennan daginn. Ég stillti mig samt um að gera eins og Sólveig, sem ullaði samviskusamlega út úr sér hverri einustu kleinuörðu.

Á leiðinni út lét ég mig dreyma um ömmukaffihús þar sem bara gamlar og virðulegar og hlýlegar konur í rósóttum sloppum sæju um afgreiðslu, studdu á hnappa og töluðu um smámynt. Og þar væri hægt að kaupa ekta ömmukleinur, ekki einhverjar ofvaxna dropahlunka. Og upprúllaðar pönnukökur með sykri, soðið brauð, lagtertur, lummur...... heitt kakó í rósóttum brothættum bollum.......

9.10.07

Ekki jibbí


... ekki jei
... ekki vúhú og allt það

... ekki rafmagn

Hvað klikkaði?

Fylgist með næsta þætti í (raf)mögnuðu framhaldsspennusögunni "Torfastaðaundrin".

Jeesssss!!



Vúúúúúúhúúúúú!
Jeiii!
Jiiibbbbbíííí!
Loooksins!!
Jeeeesss!
Gaaaarrrrggg!
Jííhaa!
Aúúúúú!

... já semsagt, rafmagnið er komið eftir fáránlega langa bið og allt of mörg símtöl.

Í kvöld renni ég austur og set í gang rafmagnshitablásara og byrja að kynda húsið. Núna getur næsti kafli framkvæmdanna á Torfastaðaheiðinni farið að byrja.

Matarást




Það er alveg ofboðslega gaman að gefa henni Sólveigu að borða. Ekki bara af því að henni finnst eiginlega allur matur góður, heldur af því að hún nýtur matarins svo yndislega mikið.

Hún vill borða oft, en lítið í einu. Ef henni finnst foreldrar sínir seinir við að setja mat á borðið þá grípur hún til sinna ráða, nær sér í krukku inn í skáp og setur á borðið, klifrar upp í stólinn sinn og segir "NAMM! NAMM!"

Á morgnana situr hún í stólnum sínum og borðar hafragrautinn sinn, og sönglar með "mmmmm, nammm, nammm, mmmm, ammm, mmmm". Voða notaleg morgunverðarstund hérna hjá fjölskyldunni með þennan undirleik. Og auðvitað borðar hún sjálf, það er mjög mikilvægur þáttur í þessari matarupplifun allri. Venjulega er hún frekar dugleg að nota skeið eða gaffal, en ef það er eitthvað sérstaklega gott í matinn, eins og t.d. hakk og pasta, þá bara verður hún að nota hendurnar líka, - og jafnvel allt andlitið, og þá færist "namm namm" söngurinn upp á æðra stig. "AMM, NAMM, MMMMM, NAMM, MMMM..." svo hátt að aðrir geta varla talað saman fyrir söngnum háværa.

2.10.07

Umskiptingur

Ég fór til læknis í gær með eyrnasjúklingana mína. Sólveig var með eyrnabólgu í síðustu viku, slapp sem betur fer við sýklalyf en miðað við pirringinn og öskrin í henni var ég nokkuð viss um að eyrun væru ekki í lagi, og það stóð heima, vökvi og þrýstingur í báðum eyrum. En það lagast vonandi á næstu vikum. Sindri fékk svo eyrnabólgu í sitt slæma hægra eyra í fyrradag með tilheyrandi pirringi og verkjum, og svo byrjaði að leka úr því einhver eyrnadrulla. Krakkarnir stóðu sig vel í læknisskoðuninni og við fórum út með lyfseðil fyrir dropum í eyrað hans Sindra.

Um leið og við komum í apótekið þá breyttist hún Sólveig litla ljúfa í algjöran umskipting. Öskraði af öllum lífs og sálar kröftum og spriklaði og sparkaði og það var ekki nokkur leið að finna nokkuð til að vekja áhuga hennar. Ég rétti fram lyfseðilinn og augu allra viðskiptavinanna beindust að konunni með snarbrjálaða krakkann. Hneyksluð augnarráð, vorkunsöm augnaráð, pirruð augnaráð. Og svo hófst biðin.

Við Sindri gerðum okkar besta til að gleðja Sólveigu, afgreiðslukonan kom líka og reyndi að rétta henni eitthvað sniðugt, en Sólveig bara öskraði hærra og gerði góða tilraun til að kasta sér í gólfið úr fanginu á mér. Vorkunssömum og pirruðum augnarráðum fjölgaði á meðan ég gekk um gólf með öskrandi barnið.

Að lokum leit afgreiðslukonan glaðlega til mín um leið og hún kallaði upp lyfseðil. Ég reif upp veskið, borgaði, greip pokann og dreif mig út. Á leiðinni hugsaði ég samt, svakalega hafa þessir dropar hækkað í verði. Á bílaplaninu leit ég á pokann og sá að hann var merktur Guttormi Erni eða einhverju nafni jafn ólíku Sindra Heiðari.

Skömmustuleg fór ég aftur inn í apótekið með öskrandi barnið og játaði á mig lyfjastuldinn. "Barnið bara öskraði svo hátt að ég heyrði ekki nafnið, ég hélt í óskhyggju minni að loksins væri komið að okkur". Það þurfti að kalla til nokkra starfsmenn til að leiðrétta þetta í rafrænu bókhaldi apóteksins, og alltaf öskraði Sólveig. Pirruðum augnaráðum fjölgaði verulega.

Loksins kom svo að því að droparnir hans Sindra voru afgreiddir og ég komst út og alla leið heim, gjörsamlega örmagna og gaf aumingja umskiptingnum mínum henni Sólveigu verkjastíl.

Nokkurra daga innivera með tvö eyrnaveik börn duga greinilega til að breyta mér í gangandi grænmeti.

24.8.07

Kyrr kjör



Undanfarna daga hefur allt verið með kyrrum kjörum á austurvígstöðvunum. Eftir að danirnir fóru, datt allt í dúnalogn. Engin vinna í gangi þarna. Það hefur sína kosti. Til dæmis er ég ekki lengur alltaf að keyra yfir heiðina með marga lítra af gosi, brauði, áleggi og já - bjór. Get ekki sagt að ég sakni þessara ferða. Ég sakna þess heldur ekki að vera að brasa fram og aftur með rafstöðvar og loftpressur. Já og endalausar bensínferðir til að fylla á rafstöðvarskrímslið. Sakna þeirra ekki heldur. Og mikið var fallegt í kyrrðinni og rökkrinu eitt kvöldið um daginn þegar ég skrapp þarna til að snyrta til í kring um bústaðinn.

Það er nefnilega ekkert spes þarna í dagsbirtunni þessa dagana. Allt fullt af rusli út um allt. Við erum búin að fara ófáar ferðir á gámastöðina með afgangstimbur, pappír, plast, málm og pappaumbúðir - því auðvitað erum við að reyna að skila þessu flokkuðu í endurvinnslu. Við eigum talsverða vinnu eftir í frágangi þarna - en þetta hefst nú samt smám saman. Vonandi áður en fyrsta haustlægðin kemur og allt fýkur út um allt....



Góðar fréttir. Rarik skurðurinn nálgast húsið okkar óðfluga. Það styttist verulega í að við fáum rafmagn og vatn. Rafvirkinn byrjaður að draga í lagnir inni. Þá ættum við bráðlega að fara geta haft hitablásara í gangi til að þurrka upp steypuna í gólfplötunni. Allt að komast í gang aftur á austurvígstöðvunum...

Tré og list



Um síðustu helgi kíktum við á opnun á glæsilegu listagalleríi í Villingaholtshreppnum. Listilega útskornir og renndir trémunir, ljósmyndir, vefnaður og gömul handsmíðuð verkfæri voru þarna meðal annars.

Hjónin í Forsæti eru stórhuga fólk og hristu þetta bara sisvona fram úr erminni - allt heimagert. Í tilefni dagsins var starfrækt kaffihús með þvílíkum hnallþóruveitingum í stórum sal í næsta húsi. Í þeim sal er meðal annars uppsett stórt kvikmyndatjald og hafa verið sýndar þar nokkrar myndir, en þennan dag, þá var þetta kaffihús. Stórhugurinn gengur í erfðir.

http://www.treoglist.is/
Auðvitað er búið að opna heimasíðu. Nema hvað.

Sólveig skemmti sér konunglega þegar hún fékk að hjálpa til við píanóleik.

13.8.07

Sindri 7 ára


Sindri á fótboltamóti um helgina. Stór 7 ára drengur.



Sindri á fótboltamóti fyrir ári síðan. Lítill 6 ára drengur.

Já, hann Sindri okkar er orðinn 7 ára gamall. Og þvílíkt sem drengurinn hefur stækkað á einu ári, mér finnst ég hafi alltaf verið að kaupa á hann nýjar buxur, svo rétt snéri ég mér við og þá voru þær komnar upp á miðja kálfa á drengnum, og við aftur út í búð að kaupa buxur.

En Sindri hefur gert fleira á þessu ári heldur en að vaxa upp úr buxum. Þetta er árið sem hann byrjaði í skóla, fór að æfa fótbolta af krafti, eignaðist góða vini í bekknum sínum, Sverri og Bjarka, lærði að renna sér á snjóbretti, fór einn til Akureyrar í viku, tók þátt í fyrsta skákmótinu sínu og margt fleira.

Sindri er mikill dundari og bílaáhugamaður - getur leikið sér tímunum saman með bílana sína eða kubba. Teiknar ótrúlega flottar myndir og hjólar og hjólar út um allt. Sindri elskar allar framkvæmdir, hvort sem það heitir að smíða, gróðursetja, slá lóðina, skúra gólf, þrífa bílana, skrúfa saman húsgögn, fara út að ganga með hunda, allt þetta er fyrsta flokks skemmtun fyrir Sindra - bara ef hann fær að taka þátt.

Sindri þakkar fyrir góðar gjafir og góða gesti...

11.8.07

Dagur 19



Jæja, rafvirkinn kom heim frá eyjum og náði að klára að leggja rafmagn í veggina í gær. Hjúkk. Og danirnir aftur orðnir glaðir.

Annars eru danirnir búinir að panta sér flugferð heim á þriðjudagsmorguninn, þá ætla þeir að vera búnir að þessu, heilum tveimur vikum á undan áætlun. Í stað 5 vikna eru þetta 3 vikur. Frábært mál algjörlega.

Að vísu ná þeir ekki alveg að klára umsamið djobb. Það er ekki hægt að leggja gólfefnin strax af ýmsum ástæðum. Í fyrsta lagi er steypan í gólfplötunni ekki orðin nógu þurr og því þarf það að bíða aðeins . Í öðru lagi erum við ekki komin með vatn í húsið - og það þarf jú vatn í gólfhitakerfið sem á að vera undir gólfefnunum. Ólafur bóndi sem ætlaði að leggja til okkar vatn gat ekki gert það í sumar vegna sjúkrahússdvalar - en lofar því núna fyrir 1. september. Við bíðum bara eftir því. Já og að lokum þá vantar okkur líka rafmagn frá Rarik. Það er búin að vera löng og "skemmtileg" saga, allt brasið í kring um það, en núna virðist ætla að rætast úr á allra næstu vikum. Jæja, við vissum að þessir hlutir stóðu tæpt þegar við ákváðum að taka við húsinu 2 mánuðum á undan áætlun, þannig að við erum alveg róleg yfir þessu. Eigum bara þetta fína hús án allra nútímaþæginda.

En danirnir eiga eftir að koma aftur og reisa nokkur hús á Íslandi í viðbót á næstu vikum og munu þá skjótast til okkar í örfáa daga og klára það sem er eftir - þegar platan er orðin þurr - og við komin með vatn og rafmagn.

Þangað til njótum við bara kyrrðarinnar á heiðinni og ótrúlega flotta útsýnisins.

7.8.07

Dagur 15



Núna er mikið að gerast í bústaðnum okkar á Torfastaðaheiðinni, enda fóru danirnir ekki á neina útihátíð um helgina, heldur "bara vinna, vinna!" eins og Lars orðar það svo vel.

En núna erum við komin með innveggi og þar með alls konar herbergi í húsið, mjög flott.
Háaloftið er samt ekki komið upp.
Búið að klæða loftið og búið að leggja rörið fyrir kamínuna.
Elhúsinnrétting byrjuð að fæðast. Við erum samt ekki svona svakalega "sixtís" eins og túrkísbláa innréttingin bendir til. Þetta er hlífðarplast.




Ekki hefur enn spurst til rafvirkjans síðan hann fór til eyja. Vonandi skolar honum á land fljótlega því danirnir eru orðnir "nett" pirraðir á þessu rafvirkjaleysi, þótt það séu ekki margir virkir dagar síðan hann fór. Og þeir eiga mörg miður falleg orð um vinnukúltúr íslendinga. Já og drykkjukúltúr. Þeim finnst miklu kúltiveraðra að gera þetta eins og danskurinn og drekka bara í vinnunni ;-)

2.8.07

Dagur 11



Gott að frétta af bústaðarbyggingum. Fyrir utan endalaust vesen með loftpressur - núna þurfti þessi nýja að bila, með tilheyrandi skutli, reddingum og bykoferðum. Eftir árangurslausa leit á leigumörkuðum að lausri pressu sem ekki tekur mikið rafmagn, endaði ég með að kaupa nýja og byko tók þá gömlu í viðgerð. Ég er eiginlega alveg hætt að hafa húmor fyrir þessum verkfærakaupum mínum.

Raflagnir í loft og útveggi komnar og verið að klára seinna lagið af einangrun.
Byrjað á að setja klæðninguna í loftið.
Ennþá verið að vinna við þakið, þakrennur og það allt.



Næst á dagskrá er að koma innveggjunum á sinn stað, og svo þarf að fá rafvirkjana aftur til að klára raflagnir í þeim. Eini gallinn er að rafmagnsmaður einn fór til eyja með 7L af göróttum drykk og óvíst um hvenær hann kemur aftur til vinnu. Kannski á þriðjudag - líklega á miðvikudag. Lars og Peter líst ekkert á þetta og eru hræddir um að verða verkefnalausir strandaglópar á eyjunni bláu.....



Sólveig er hamingjusöm að skottast í kringum mig í bústaðarferðunum. Er orðin mjög dugleg að tína upp í sig ber, en hérna er hún reyndar að smakka á moldinni - ekki alveg jafn bragðgott.

Sindri smiður



Í dag fórum við í Byko, eins og oft áður, Byko er orðið okkar annað heimili. En í dag fékk Sindri að velja sér hamar og einn pakka af nöglum. Ég held að fáar gjafir hafi veitt honum jafn mikla gleði (fyrir utan kannski eftirlíkinguna af effelturninum sem hann fékk þegar hann var 3ja ára í París - hann þurfti að sofa með hann uppí í marga mánuði á eftir).

En jæja, Sindri hefur varla skilið hamarinn við sig í allan dag. Og hann er búinn að smíða og smíða, enda nóg af afgangstimbri í kring um bústaðinn. Ekki skortir metnaðinn, fyrst á dagskrá er vinnuborð - til að smíða við. Svo er hann byrjaður að leggja drög að sófa. Auk þess á hann myndarlegt vopnabúr, smíðar byssur og riffla á færibandi.

Hjólhýsapakk



Á leiðinni frá Selfossi að Rauðavatni, á fimmtudagskvöld fyrir verslunarmannahelgina mættum við:

15 hjólhýsum
14 fellihýsum
11 tjaldvögnum
7 húsbílum

Og það var almennt lítil umferð.

Þetta er partur af hinum hefðbundna bílatalningarleik okkar Sindra á ferðunum endalausu yfir Hellisheiðina. Við veljum okkur bíla eða einhver farartæki (t.d. jeppa eða hvíta bíla) og svo er æsispennandi keppni um það hver vinnur. Almennar niðurstöður úr þessum keppnum eru þær að jeppar hafa alltaf vinninginn, nema ef skyldu vera gráir bílar. Næst koma hvítir bílar, sirka jafn mikið af rauðum og bláum. En um verslunarmannahelgina er mjög gott að veðja á hjólhýsi.

31.7.07

Dagur 8




Framkvæmdir ganga mjög vel á Torfastaðaheiðinni. Komnir útveggir og þak og allir gluggar, stórir sem smáir. Já og líka hurðir. Búið að einangra og plasta, allar súlur komnar á sinn stað. Byrjað að leggja rafmagn og stálið ofan á þakið.

Næst á dagskrá eru pípulagnir, innveggir og háaloft og svo meira rafmagn. Það verður gaman að sjá það gerast.

Sveitalíf



Síðustu vikurnar er ég búin að keyra égveitekkihvaðmargar ferðir á milli Torfastaða og Hrísrima.
Fyrst þurfti ég að fara nokkuð margar ferðir til að koma öllum græjunum á staðinn; stigar, rafstöð, loftpressa, bensín, sög, verkfæri, allt þurfti þetta að vera á staðnum. Allt klappað og klárt og eftir bókinni - hélt ég.

Og svo byrjaði ballið. Fyrst þurfti ég að skutla á staðinn fleiri verkfærum sem hafði gleymst að láta mig fá. Svo þurfti ég að kaupa meira bensín því rafstöðin eyddi svo miklu. Svo þurfti að koma bilaða bílnum til og frá verkstæði og bílaleigubílnum til og frá. Svo þurfti að koma með nýja slöngu fyrir loftpressuna. Svo þurfti ég að koma með mat fyrir smiðina. Meira brauð og álegg - ekki hangikjöt. Svo bilaði rafstöðin og spjó eldi. Þá þurfti ég nýja og stærri rafstöð. Svo kom í ljós að loftpressan tók of mikið rafmagn. Þá þurfti ég að koma með nýja og minni loftpressu. Svo þurfti ég að kaupa meira bensín. Svo redda brothamri til að koma súlunni á sinn stað. Svo fara með byggingarusl á gámastöðina. Svo meiri mat fyrir smiðina, meira bensín fyrir rafstöðina, meira meira meira.

Ferðirnar eru orðnar nokkuð margar, en allar bráðnauðsynlegar. Fyrir utan að ferja mat, bensín og verkfæri, þá þarf að taka ýmsar ákvarðanir á staðnum með hin og þessi smáatriði og stór, kalla til rafvirkja og pípara og tryggja að enginn þvælist fyrir eða stígi á tær á hinum iðnaðarmönnunum, og já, nú fatta ég af hverju það er alltaf verkstjóri á öllum svona verkum.

Og í öllum þessum ferðum er ég með eitt eða fleiri börn með mér. Og við höfum brallað ýmislegt skemmtilegt. Berjamó og gönguferðir, gróðursetning og draumar um kofabyggingar, nestistími úti í móa, klappa hundum og hestum. Þar að auki tekur fólkið í Biskupstungnahreppi óskaplega vel á móti okkur, nágranni okkar á heiðinni, stöðvarstjórninn á bensínstöðinni, hjónin á bænum og gamli borgarfulltrúinn - öll eru þau hvert öðru vingjarnlegra.